Neytandinn og umhverfið

Það á að vera auðvelt og hagkvæmt að vera umhverfisvæn

Eitt af hlutverkum stjórnvalda er að auðvelda fólki að vera umhverfisvænt og umbuna því sem stendur sig vel. Við í VG tókum mörg mikilvæg skref í þessa átt á kjörtímabilinu.

Við settum í lög að flokkun skyldi vera með sama hætti alls staðar á landinu, því þú átt ekki að þurfa að læra upp á nýtt í hvaða tunnu plast eða pappír á að fara í hvert sinn sem þú ferð út fyrir heimabyggðina þína.

Við gerðum að skyldu að einstaklingar og fyrirtæki flokki heimilisúrgang, því það á að vera sjálfsagt að halda hráefnum í hringrás og standa vörð um takmarkaðar auðlindir jarðar, en ekki valfrjálst fyrir áhugasama.

Með lagabreytingum sáum við til þess að það mun kosta okkur minna ef við hendum minna og ef við flokkum meira, því það á að vera auðveldi og ódýri kosturinn í stöðunni að vera með náttúrunni og loftslaginu í liði.

Sömuleiðis gerðum við þær breytingar að fleiri úrgangsflokkar verða sóttir heim að dyrum hjá fólki (a.m.k. pappír, pappi, plast og lífrænn úrgangur). Því það er auðveldara að flokka ef ekki þarf að sendast um bæinn þveran og endilangan til þess að henda í rétta tunnu.

Við Vinstri græn viljum gefa skattaafslætti af viðgerðum. Því það á að borga sig að gera við hluti frekar en að kaupa nýja. Við þurfum að senda skýr skilaboð um að við viljum búa í samfélagi þar sem vörur endast lengur og þar sem hægt er að gera við þær.

Við Vinstri græn viljum skapa samfélag þar sem meginþjónusta er innan seilingar og tekur ekki meira en 15-20 mínútur að ganga eða hjóla í alla helstu þjónustu, helst mun minna.

Því það á að vera auðvelt að sækja sér þjónustu á loftslagsvænan hátt og þurfa ekki að setjast upp í bíl til þess að komast í matvörubúð, skóla eða íþróttir.

Við Vinstri græn höfum nú þegar náð árangri í loftslagsmálum fyrir samfélagið og framtíðar kynslóðir og ætlum að stíga enn stærri skref á næsta kjörtímabili ef við fáum til þess stuðning.

Það skiptir máli hver stjórnar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Umhverfis- og auðlindaráðherra sem skipar 1. sæti á lista VG í suðvesturkjördæmi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar