Minnispunktar til kjósenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins 10.-12. júní nk.

Framboð mitt miðar að því að hvetja Íslendinga til eftirtektar og umræðu um mikilvægi þess að:

Verja fullveldi Íslands og lýðræðislegt stjórnarfar
Fullvalda ríki hefur völd til að setja lög og afnema þau. Ísland á aðild að EES-samningnum en með honum er ríkisvald framselt til alþjóðastofnana (nú undir ESB) sem Ísland á ekki beina aðild að. EES-samningurinn teygir anga sína sífellt víðar en menn sáu fyrir í upphafi, við undirritun hans. Þær reglur sem eiga að gilda á Íslandi eiga að vera settar af Íslendingum eða amk alls ekki án aðkomu þeirra. Sem fullvalda þjóð eiga Íslendingar ekki að þurfa að gangast undir neinar reglur gegn vilja sínum og hagsmunum.

Standa vörð um frelsi einstaklingsins, þ.m.t. tjáningarfrelsið
Frelsi einstaklingsins – þar sem skoðana- og tjáningarfrelsi skipa háan sess – veitir stjórnvöldum aðhald og temprar vald þeirra. Þegar tjáningarfrelsið er takmarkað er aðgangur almennings að upplýsingum og ólíkum sjónarmiðum takmarkaður. Með því móti er lýðræðislegt stjórnarfar veikt. 
 
Vernda náttúruauðlindir Íslands
Sjálfstæðisbarátta nú og á næstu árum mun felast í að verja náttúruauðlindir Íslands fyrir ásælni erlends valds og erlends fjármagns. Gæði landsins eiga að vera til hagsbóta fyrir íbúa þess. 

Efla menntun, sérstaklega lestur og aðra grundvallarfærni
Mikilvægt er að gagnrýnin hugsun sé viðhöfð í kennslu hér á landi. Menntun skal miða að því að þroska hæfileika manna til að öðlast frelsi og viðhalda frelsi sínu. Mikilvægt er að hver uppvaxandi einstaklingur fái sem best tækifæri til að njóta þeirrar menntunar sem hugur hans og geta stendur til.
 
Verja klassískt frjálslyndi gagnvart ógn stjórnlyndis
Standa verður vörð um borgaraleg réttindi, þ.m.t. tjáningarfrelsi, en að þessum réttindum er nú sótt úr ýmsum áttum, t.d. með ritskoðun, þöggunartilburðum, umburðarleysi gagnvart skoðunum annarra, o.fl. Ákvæði stjórnarskrárinnar marka ramma utan um líf og frelsi borgaranna, sem okkur ber að virða og verja.
  
Sjálfstæðisflokkurinn sé uppruna sínum trúr og gæti þess að lagasetning grundvallist á hugsjónum sígildrar sjálfstæðisstefnu um sjálfsákvörðunarrétt, einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi
Sjálfstæðisflokkurinn á að leggja rækt við uppruna sinn, sbr. eftirfarandi tvö mál sem tilgreind voru sem aðalstefnumál flokksins við stofnun hans 1929:
1.  Að vinna að því að undirbúa það, að Íslandi taki að fullu öll sín mál í sínar eigin hendur og gæði landsins til afnota fyrir landsmenn eina […].
 2.  Að vinna að innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.

Arnar Þór Jónsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar