Með þjóðinni í liði – fyrir framtíðina

Á síðustu vikum hefur verið einstakt að finna drifkraftinn og lífsgleðina sem býr í fólki um allt land. Það er ljóst að við sem þjóð höfum alla burði til að takast á við framtíðina með krafti og samtakamætti.

Heimurinn er á fleygiferð. Loftslagsbreytingar og framfarir á sviði tækni og gervigreindar munu í náinni framtíð leiða til fjölda áskorana fyrir okkur sem þjóð. Í áskorunum felast líka tækifæri. Þá skiptir máli að þétta raðirnar, sækja fram í sköpun og tækni og hlúa að fólkinu okkar, menningu, tungu og auðlindum. Þar gegnir embætti forseta Íslands veigamiklu hlutverki.

Ég hef undanfarna tvo áratugi byggt upp víðtæka þekkingu á málefnum sem skipta sköpum fyrir framtíð Íslands. Má þar nefna auðlinda- og umhverfismál, jafnréttis- og menningarmál og málefni norðurslóða. Þessa reynslu vil ég nýta til að efla íslenskt samfélag.

Sem forseti mun ég tala fyrir langtímahugsun og almannahagsmunum þegar kemur að nýtingu auðlinda og landgæða. Ég mun vera málsvari barna og ungmenna og standa vörð um réttindi þeirra, velferð og andlega líðan. Það sama gildir um eldri borgara landsins. Það er mikilvægt að efla rödd þeirra sem byggt hafa upp landið og sýna þeim verðskuldaða væntumþykju og virðingu.

Ég mun hvetja til uppbyggilegs samtals þvert á landshluta og skapa farveg fyrir alla í fjölbreyttu samfélagi okkar svo að úr verði öflug heild. Þar skiptir máli að nýir Íslendingar fái grundvöll til að blómstra og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Þannig aukum við samstöðu, samkennd og kærleika.

Ég mun tala fyrir hagsmunum þjóðarinnar á alþjóðavettvangi, fyrir friði, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindum. Ég mun nýta tengsl mín og þekkingu á málefnum norðurslóða til að gæta hagsmuna Íslands á krefjandi tímum þar sem margs konar breytingar á sviði umhverfis- og öryggismála eru fyrirsjáanlegar.

Forseti Íslands á að bera virðingu fyrir Alþingi og standa utan við pólitískan dans. En hann þarf jafnframt að standa keikur með þjóðinni ef á móti blæs. Komi upp sérstakar aðstæður þar sem langtímahagsmunir þjóðarinnar eru undir getur þjóðin treyst því að ég mun stíga inn.

Við sem þjóð höfum alla burði til að skara fram úr í breyttum heimi. Með samvinnu og þátttöku að leiðarljósi höfum við Íslendingar náð ótrúlegum árangri. Ríkidæmi okkar býr í náttúrunni, hugviti og hæfileikum þjóðarinnar. Með samstöðu hefur okkur tekist að rækta þessar mikilvægu auðlindir. Þannig verðum við að vinna áfram, með almannahagsmuni að leiðarljósi, samfélaginu öllu til heilla.

Þú getur treyst því að ég verð með þjóðinni í liði, því að saman getum við allt – fyrir framtíðina.

Ég bið um þinn stuðning í embætti forseta Íslands.

Halla Hrund Logadóttir

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar