Gleðilegt nýtt ár!

Kæru Garðbæingar,

Við óskum ykkur farsældar á nýju ári og þökkum um leið fyrir þann stuðning og traust sem við í Viðreisn fengum í sveitarstjórnarkosningunum síðastliðið vor.

Árið 2022 hefur verið viðburðaríkt fyrir samfélagið í Garðabæ, fullt af alls konar áskorunum. Ný bæjarstjórn tók við á vormánuðum. Samtal og samstarf er að okkar mati helsta einkenni nýrrar bæjarstjórnar sem er ekki bara ánægjulegt heldur mjög mikilvægt fyrir samfélagið.

Því er sérstaklega ánægjulegt að horfa til ársins 2023 með nýsamþykkta fjárhagsáætlun sveitarfélagsins til hliðsjónar. Áætlun sem bæjarstjórnin öll tók þátt í að vinna.
Með góðu samtali og samstarfi íbúum til heilla.

Guðlaugur Kristmundsson

Þegar við lítum til baka yfir verkefnin stór og smá á árinu 2022 þá er eitt sem snertir okkur meira en önnur. Hvernig samfélagið tók á móti öllu því fólki sem settist að í Garðabæ á árinu. Þar var stærstur hópurinn sem kom frá Úkraínu og samfélagið í Garðabæ umvafði kærleika. Öll lögðumst við á eitt við að skapa nýjum íbúum sem í algjörri neyð hafa flúið heimilin sín og lífið sitt í heimalandinu sínu, nýtt líf hér í Garðabænum. Einstaklingsframtakið jafnt sem stuðningur sveitarfélagsins sýndi hversu megnug við erum sem samfélag. Og ekki síður hversu öfluga innviði við byggjum á. Leik- og grunnskólar hafa tekið með afar faglegum hætti á móti börnum og ungmennum og veitt stuðning sem búið verður að um ókomna tíð.
Aukinn fjölbreytileiki samfélagsins okkar er okkur öllum til heilla. Við höfum tekið fallega á móti fólki á flótta og ég trúi því að þeirri vegferð verði áfram haldið.

Árið 2023 verður ár velferðar í Garðabæ. Við munum sjá nýjan íbúðakjarna fyrir fatlað fólk rísa og auknum fjármunum varið í uppbyggingu á félagslegu húsnæði sem við í Viðreisn munum halda áfram að tala fyrir. Búseta í Garðabær á að vera valkostur fyrir öll.

Í fjárhagsáætlun næsta árs er að finna sem aldrei fyrr stóraukna áherslu á velferð þar sem þjónusta við unga sem aldna er sett í forgang með mikilvægum stuðningi sem áætlað er að styðja sérstaklega við betri líðan.
Börn og ungmenni sem þurfa á auknum stuðningi að halda verður tryggð aukin þjónusta, sérstaklega er stutt við eldri íbúa sem búa við félagslega einangrun og stutt verður betur við starfsemi félagsmiðstöðva sem er gríðarlega mikilvæg starfsemi, ekki síst þegar kemur að forvörnum og lýðheilsu.
Sumarfrístund er tryggð og hvatapeningur hækkaður. Heildstæð og fagleg hinsegin fræðsla er í höfn enda mikilvægt að standa með fjölbreytileikanum og hlúa að líðan allra.

Allt áherslur sem við í Viðreisn höfum talað og beitt okkur fyrir undanfarin misseri.

Það er afar ánægjulegt fyrir bæjarfulltrúa þegar þverpólitísk samvinna verður ofan á í störfum bæjarstjórnar. Við erum fyrst og fremst hér til að þjóna íbúum, til þess að vinna saman að sem bestum hag íbúa og standa vörð um mikilvæga þjónustu svo öll fái blómstrað.

Við óskum ykkur öllum gleðilegs nýs árs og okkar bestu óskir um gjöfular og góðar samverustundir með ykkar fólki á nýju ári.

Sara Dögg Svanhildardóttir – oddviti og bæjarfulltrúi Viðreisnar
Guðlaugur Kristmundsson – varabæjarfulltrúi Viðreisnar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar