Fullorðið fólk á að ráða sér sjálft 

Fyrirsögn þessarar greinar hljómar kannski eins og sjálfsagður hlutur. Okkur finnst þetta líklega öllum og okkur finnst að þetta sé einmitt svona. Eða er það ekki?

En þegar kemur að þjónustu við eldra fólk á efri árum, einkum þegar heilsan er farin að gefa sig, er þetta ekki endilega svona. Í alltof langan tíma hefur þjónusta við eldra fólk verið miðuð að þörfum kerfisins fremur en þeirra sem nota þjónustuna. Þjónusta hefur verið of stofnanamiðuð. Við höfum leyft ríki og sveitarfélögum að kasta „boltanum“ á milli sín og eldra fólk í þörf fyrir þjónustu hefur lent á milli.

Við getum breytt þessu. Við getum kallað eldra fólk til miklu meira samráðs um hvernig það vill að þjónustan sé og við getum ákveðið að þjónustan sé í miklu meira mæli á forsendum notendanna en hún er í dag.

Þjónusta á forsendum fólks, ekki kerfa

Það er mikið talað um að við eigum að gera fólki kleift að búa heima eins lengi og kostur er og að við eigum að gera þjónustuna þannig að fólk geti það. Nútímafólk lítur ekki á sig sem þiggjendur þjónustu, heldur notendur. Fólk leitar ekki eftir persónulegri þjónustu á forsendum þeirra sem bjóða hana, heldur á sínum forsendum.  Þannig eiga sveitarfélög og ríki að bjóða þjónustuna.  Hún á að vera til staðar eftir þörfum notenda. Dagþjónusta á að horfa til þess að það eru ekki allir til í að rífa sig upp snemma á morgnana. Hún á að horfa til þess að fólk er bæði A og B týpur. Við eigum að bjóða þjónustu á kvöldin og um helgar.

Nýlegt verkefni á Akureyri með sveigjanlega dagþjónustu á forsendum notenda hefur sýnt okkur að þegar þjónusta er sveigð að þörfum notendanna þá vilja þeir nota hana lengur, vera lengur heima, leita minna inn á stofnanir og dvelja þar  skemur.  Afleiðingin verður svo sú að notendur eru ánægðari, þjónustan er ódýrari en hjúkrunarheimili og allt samfélagið hefur hag af. 

Akureyrar-verkefnið fékk fjármagn sem svaraði rekstri 10 hjúkrunarrýma og sparaði sem svarar rekstri ríflega 20 rýma á ári.  Aðstæður kunna auðvitað að vera mismunandi eftir svæðum en þótt við einblínum bara á ánægju notendanna, en ræðum ekki um peninga, þarf ekki frekari vitna við.
Vinstri græn vilja að við bjóðum þjónustu á forsendum notenda. Þannig gerum við betur um leið og við spörum peninga og beygjum af leið stofnanavæðingar. Gerum það.

Ólafur Þór Gunnarsson, öldrunarlæknir og alþingismaður skipar 3. sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi
Þóra Elfa Björnsson, setjari og fyrrv. framhaldsskólakennari skipar 5. sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar