Ferkantað fæðingarorlofskerfi 

Fæðingarorlofskerfið okkar er frábært skref í því að tryggja réttindi barna og jafna stöðu kynjanna og einstakt á heimsvísu. Hins vegar er kerfið götótt og alltof margir falla á milli skips og bryggju, einmitt á þeim tíma sem fólk þarf hvað mest á öryggi og stöðugleika að halda þegar það býður nýjan einstakling velkominn í heiminn.

Fæðingarorlofskerfið okkar er búið til fyrir Meðal-Jón sem hefur lokið námi, hefur verið 6 mánuði í fastri vinnu og er með fínar tekjur. En lífið er ekki ferkantað og fólk á barneignaraldri er gjarnan á breytingartímum í lífinu sem tengjast því að vera í námi eða að vera að klára nám. Það vinnur með skóla, er í hlutastörfum með, vinnur verktakavinnu og svo mætti áfram telja. Allir sem falla ekki inn í hinn ferkantaða ramma eiga í hættu á að falla á milli.

Ég sjálf hafði nýlega lokið námi, verið á örorku og verktakagreiðslum, og aðeins unnið í nýju starfi í 3 mánuði þegar sonur minn fæddist. Ég lenti algjörlega á milli. Ég var ekki námsmaður í augum kerfisins því ég hafði ekki verið í fullu námi á 12 mánaða tímabili og ég var ekki launþegi. Ég náði að kæra mig inn á bætur námsmanna en ekki var fyrirséð um hvort það yrði samþykkt og miklar fjárhagsáhyggjur fylgdu þessu ferli.

Það er ekki sjálfbært fyrir samfélagið að krefjast þess að fólk eignist ekki börn nema að velígrunduðu skipulagi sem byggt er á ferkantaðri reglugerð ríkisins um fæðingarorlof. Fólk á að mega vera í vinnu og námi, vera einyrkjar og launþegar eða hafa glímt við veikindi, og samt átt í sig og á.

Við þurfum að grípa fólk sem er í námi og vinnu, sem vinnur sem launþegar og verktakar samhliða eins og algengt er í gigg hagkerfinu, við þurfum að grípa fólk sem hefur haft litlar tekjur og tryggja lágmarksframfærslu fólks í fæðingarorlofi sem hægt er að lifa af. Í dag er þessi upphæð 80.341 kr. á mánuði. Til þess að lifa af og framfleyta barni og fjölskyldu, jafnvel eldri systkinum. Engin orð þarf að hafa um hvers konar álag þetta er á verðandi foreldra.

Samfylkingin tryggir þér betra líf fyrir þig, fjölskyldu þína og komandi kynslóðir. Kynntu þér stefnuna á xs.is.

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir
Höfundur skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar