Eru breytingar í nánd?

Nú fagnar Samfylkingin góðum niðurstöðum kosninga til alþingis Íslendinga og situr með Viðreisn og Flokki fólksins við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Ég ætla að treysta því að sú vinna skili tilætluðum árangri og færi okkur nýjar áherslur í átt að félagshyggju; áherslur sem í grunninn þýða öruggt lífsviðurværi fyrir alla þegna landsins.

En hvað þarf að gera til þess að það geti orðið að veruleika?

Úrræði síðustu ríkisstjórna til aukinna húsnæðisvalkosta

Síðustu ár hefur ákall um fleiri íbúðir verið áberandi í þjóðfélaginu í kjölfar mestu fólksfjölgunar frá upphafi manntals á Íslandi. En það er ekki öll sagan. Fólk verður að geta keypt þessar íbúðir. Síðustu ríkisstjórnir tryggðu nokkur veigamikil úrræði til þess að koma til móts við þann hluta þjóðarinnar sem ekki getur hjálparlaust komið sér upp þaki yfir höfuðið. Þar má telja hlutdeildarlán fyrir allt að 20% af kaupverði sem ætluð eru fyrir fyrstu kaupendur sem kaupa íbúðir undir ákveðnum viðmiðunarverðum. Notkun séreignarsparnaðar til íbúðarkaupa og uppgreiðslu lána er úrræði sem mikið hefur verið nýtt en ekki allir eru sammála um. Og síðast en ekki síst er úrræð ríkis og sveitarfélaga um 30% byggingarstyrk (18% og 12%) til óhagnaðardrifinna leigufélaga sem byggja upp hagstætt leiguhúsnæði og leigja til fólks með tekjur undir viðmiðunarmörkum sem skilgreind eru í lögum nr. 52/2016 um almennar íbúðir.

Hvernig hefur tekist til?
Þrátt fyrir góð fyrirheit þá hafa þessi ráð ekki raungerst að fullum þunga. Í öllum tilfellum þurfa ríki og sveitarfélög að gangast undir sameinginleg markmið svo framgangur náist. Skipulagsvaldið og lóðaúthlutun er á hendi sveitarstjórna og þær eru ekki allar tilbúnar til að gefa eftir 12% af byggingakostnaði heillar blokkar. Þarna skipta pólitískar skoðanir öllu máli. Í sveitarfélögunum í kringum borgina hafa sjálfstæðismenn almennt leitt meirihlutastjórn í fjölda ára. Þeir leggja áherslu á séreignastefnu. Almenn leigufélög (óhagnaðardrifin) eiga ekki upp á pallborðið hjá þeim. Reykjavík hefur staðið í stafni við að úthluta lóðum til slíkra félaga sem bjóða umtalsvert lægri leigu en hinn almenni markaður þar sem þriggja herbergja íbúð er leigð á 300 þúsund eða meira. Kópavogur hefur ekki séð ástæðu til að úthluta einni einustu lóð til slíkra félaga. Í Hafnarfirði og Garðabæ má finna slíkar íbúðir þó Reykjavík beri höfuð og herðar yfir önnur sveitarfélög í uppbyggingu slíkra íbúða en þar gerir húsnæðisáætlun ráð fyrir að 30% húsnæðis sé byggt af óhagnaðardrifnum félögum. Það er eðlileg krafa þar sem tölur benda til þess að á hverjum tíma geti um 30% íbúa ekki orðið sér úti um húsnæði án aðstoðar.

Húsnæðisuppbygging í Kópavogi hefur verið með þeim hætti síðustu áratugi að hún laðar að sér vel sett fólk sem vill minnka við sig. Nánast engar íbúðir í öllum þeim fjölbýlishúsum sem hafa risið hér í bænum passa fyrir hlutdeildarlán. Þær eru allar of dýrar. Þær eru það dýrar að bæjaryfirvöld hafa haldið að sér höndum við að bæta við íbúðum í félagslega íbúðakerfið en skv. áætlun ætti að bæta við um sex íbúðum á ári í það minnsta. Og það hefur ekki gerst síðustu ár.

Hvað getum við gert?
Það er ljóst að meirihluti sjálfstæðis- og framsóknarfólks í Kópavogi vill ekki taka þátt í að tryggja 30% íbúa á Íslandi öruggt húsnæði, þrátt fyrir stöðugt ákall minnihlutans þar um og þrátt fyrir að þeirra eigin stjórnarflokkar hafi komið á fót úrræðum fyrir þennan hóp. Eina leiðin sem ég sé tæka í dag er að ríkisvaldið skikki sveitarfélögin innan höfuðborgarsvæðisins til þess að úthluta ákveðnu hlutfalli lóða á nýbyggingarsvæðum til óhagnaðardrifinna leigufélaga. Öðru vísi munum við aldrei ná að tryggja öllum íbúum landsins öruggt húsaskjól.

Með ósk um gleðileg jól og farsæld á komandi ári
Bergljót Kristinsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins