Er Kópavogsbær vel rekinn?

Nú hefur ársreikningur Kópavogsbæjar fyrir árið 2023 verið samþykktur af bæjarstjórn. Bæjarstjórinn Ásdís Kristjánsdóttir hefur víða komið fram með innlegg í fjölmiðlum þar sem hún dásamar góðan rekstur undir sinni stjórn. Á vef bæjarins er grein með fyrirsögninni „Rekstur Kópavogsbæjar styrkist verulega milli ára“. Þar fagnar hún traustum rekstri og bendir m.a. á að rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði sé mun betri en árið 2022. Ekkert er minnst á endanlega rekstrarniðurstöðu fyrr en stuttlega í lok greinarinnar. 

Hver er rekstrarniðurstaðan?

Það er hægt að auglýsa góðan rekstur með því að vísa í ákveðna mælikvarða en sleppa öðrum.  Hvað er það sem bæjarstjórinn sleppir að nefna sem skiptir máli? Jú að rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs (A-hluta) er 750 milljónir í mínus. Ekki nóg með það þá var hún 2 milljarða í mínus árið áður. Undir styrkri stjórn sjálfstæðis- og framsóknarmanna á þessu kjörtímabili hefur bærinn verið rekinn með miklum halla bæði árin.  Samkvæmt stöðlum nágrannaþjóða okkar er miðað við að rekstur sveitarfélaga sé sjálfbær ef hann skilar 1,5 – 2% af veltu í afgang. Það gerir um 800 milljónir. Ef við skoðum síðustu fjögur ár hefur bæjarsjóður verið rekinn við núllið eða undir því öll árin. Hvaða áhrif hefur það?

Þegar fyrirtæki og sveitarfélög eru rekin með tapi er tvennt í stöðunni. Að taka lán fyrir rekstrinum eða ganga á eignir sínar. Svo er að sjálfsögðu hægt að beita ráðdeild í rekstri. Sveitarfélög mega ekki skila fjárhagsáætlun með tapi enda hefur það ekki verið gert. Áætlaður rekstrarafgangur hefur verið langt undir 1,5% af veltu síðustu fjögur ár í fjárhagsáætlunum bæjarins. Hins vegar hefur reyndin verið önnur.

Lántökur á lántökur ofan

Til að halda rekstri bæjarfélagsins gangandi hafa valdhafar ítrekað aukið lántökur. Á bæjarráðsfundi 2. maí s.l. samþykkti meirihlutinn heimild til skuldabréfaútboðs upp á 4,3 milljarða til 31 árs. Við þessa lántöku bætist hækkun yfirdráttarheimildar um 1 milljarð fyrr á þessu ári. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 er þó einungis gert ráð fyrir 4,3 milljarða lántökum. Fulltrúar minnihlutans í bæjarráði bókuðu um þessar ítrekuðu lántökur og bentu sérstaklega á það sem bæjarstjóri minnist aldrei á, að veltufjárhlutfall A-hluta bæjarsjóðs var 0,47 í ársreikningi 2023 og gert er ráð fyrir því að það verði 0,38 árið 2024. Sem felur í sér að skammtímaskuldir eru að verða þrefalt hærri en veltufjármunir bæjarsjóðs. Með öðrum orðum það er verið að taka lán til að greiða fyrir rekstur bæjarins. Við eigum ekki fyrir rekstrinum lengur. Taprekstur ár eftir ár leiðir af sér að finna þarf peninga með öðrum hætti.

Lóðaúthlutanir redda rekstrinum

Á síðustu áratugum hefur ítrekað verið hægt að lagfæra rekstur bæjarins með lóðaúthlutunum. Nú hefur því ekki verið til að dreifa frá árinu 2015 svo neinu nemi fyrr en nú í Vatnsendahvarfi. En lóðir eru auðlind sem klárast. Kópavogur á lítið land eftir sem fengist hefur á góðum kjörum. Glaðheimalandið var keypt dýru verði og Vatnsendahlíð sem er síðasta óbrotna land bæjarins hefur ekki enn fengið endanlegan verðmiða. Lítandi til þess þarf að sníða rekstur bæjarins að þeirri stöðu að ekki sé hægt að „redda“ honum með því að selja lóðir.

Hver borgar brúsann?

Skuldabréfaútboð til 31 árs með þeim vaxtakjörum sem við búum við í dag er þungur baggi fyrir Kópavogsbúa framtíðarinnar. Lántaka sem notuð er til að fjármagna að hluta til ósjálfbæran rekstur núverandi meirihluta. Við horfum vongóð fram á lækkandi vexti með haustinu, getum við haldið aftur af okkur og farið í þetta skuldabréfaútboð aðeins síðar þegar vextir hafa lækkað. Væri það ekki betri stjórnsýsla þar sem hugsað er til framtíðar?

Bergljót Kristinsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar