Þegar íhaldsmenn hugsa um Samkeppnisstofnun sjá þeir fyrir sér bákn. Reglur og þunglamalega skriffinnsku sem gerir ekki annað en að tefja fyrir einkaframtakinu. Við hin sjáum fyrir okkur þjónustustofnun við almenning: stofnun sem gætir þess að farið sé að leikreglum í samkeppnisumhverfi nútímans, og að hinir sterku neyti ekki aflsmunar til að koma veg fyrir vöxt og viðgang veikari samkeppnisaðila. Stofnun sem snýst um heilbrigt atvinnulíf þar sem allir hafa sömu möguleika – og þar sem einstaklingsframtakið nýtur sín, ekki bara þeirra sem hafa ætt og fjármagn á bak við sig.
Þegar íhaldsmenn hugsa um Nýsköpunarmiðstöð sjá þeir fyrir sér bákn. Og vilja leggja niður til að geta hakað við kassann: Báknið burt. Við hin sjáum fyrir okkur þjónustumiðstöð við sprotafyrirtæki, samgöngumiðstöð nýrra hugmynda þar sem leitt er saman hugvitsfólk með snjallar hugmyndir, fjárfestar í leit að spennandi kostum og háskólafólk sem stundar rannsóknir sem geta stutt við hugmyndir eða leitt þær á nýjar brautir. Samgöngumiðstöð, eða jafnvel stúdíó þar sem búin er til framtíðarmúsík.
Þegar íhaldsmenn hugsa um skattrannsóknarstjóra sjá þeir fyrir sér bákn. Njósnastarfsemi þar sem verið er að gramsa í því sem manni kemur ekki við. Við hin sjáum fyrir okkur stofnun sem gætir hagsmuna almennings, reynir að taka á skattsvikum og knýja auðmenn til að leggja fram sinn skerf og taka þátt í sameiginlegum kostnaði við sameiginleg verkefni samfélagsins spítala og skóla og annað, í stað þess að sá kostnaður lendi allur á launafólki sem ekki á þess kost að skjóta undan skatti.
Neytendastofa? Bákn og burt með hana. Fiskistofa? Bákn og veikjum hana. Og þannig áfram koll af kolli þegar um er að ræða stofnanir sem hafa það hlutverk að gæta hagsmuna heildarinnar, almennings. Samt er báknið bara tákn í augum íhaldsins: þeir sjá ekki ofsjónum yfir útþenslu þess þegar kemur að því að raða sér sjálfir í valdastöðurnar.
Guðmundur Andri Thorsson