Ákall um að félagsheimili eldri borgara verði opin um helgar

Eitt af baráttumálum Félags eldri borgara í Kópavogi hefur ætíð verið að stuðla að því að útrýma einsemd og einveru eldra fólks, sem vissulega er til staðar hér í margmenninu.  Óumdeilt skref í þá átt er að hafa félagsheimili eldri borgara í Kópavogi opin um helgar, auk þess sem sú ákvörðun myndi klárlega efla félagslífið hjá þessum aldurshóp.

Þetta baráttumál okkar eldri borgara hefur að sjálfsögðu oft verið uppi á borði, bæði skriflega og í umræðum, og undantekningalaust allir, þar skipta pólitískar skoðanir ekki máli, allir fylgjandi því að opna félagsheimili eldri borgara um helgar.  En lengra en að vera sammála nær það ekki, ekkert gerist.  Síðast núna í maí sl. samþykkti Öldungaráð á fundi sínum að skipuð yrði nefnd til að leggja línurnar og nú tæpum fimm mánuðum síðar hefur enn ekkert gerst.

Undirskriftalistar undirbúnir

Félag eldri borgara í Kópavogi hefur nú ákveðið að standa fyrir undirskriftalistum meðal eldra fólks til að ýta við bæjarstjórn sem vonandi verður til þess að þetta bráðnauðsynlega verkefni komist á dagskrá, þegar fulltrúar bæjarstjórnar ræða fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. Undirskriftalistar verða tilbúnir mjög fljótlega og munu nánari upplýsingar um þá verða birtar m.a. á heimasíðu eldri borgara í Kópavogi og í tölvupóstum til félagsmanna.

Fh. Félags eldri borgara í Kópavogi

Baldur Þór Baldvinsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar