Á fallegri sjávarlóð á Kársnesinu rís Hafnarbraut 14 með útsýni inn Fossvoginn, yfir í Nauthólsvík og alla leið út á opið hafið. Í útliti minnir byggingin einna helst á sólarlag á góðviðrisdegi; efsti hluti byggingarinnar er klæddur gylltri klæðningu á meðan neðar á byggingunni glitrar á misjafnlega glansandi hvíta fleka, líkt og þegar geislar glampa á bárutoppum. Byggingin bregður á leik við umhverfi sitt, Kársnesið, sem er spennandi og vel tengt borgarlandslag í örum vexti, umlukið náttúru og fjölda grænna svæða og með gullfallega sjávarsýn.
Tvíhorf arkitektar er teiknistofan sem stendur að baki hönnuninni. Til að byggingin nýti sem allra best gæðin í kring tóku arkitektarnir nokkur skref við að móta form byggingarinnar og gera útlit hennar sem fjölbreytilegast. Byggingin hefur skeifulaga form með gleiðu horni, til að opna hana út á móti sjónum og skýla miðjutorginu um leið fyrir veðri og vindum. Skarð er rist í miðjuhluta skeifunnar til að lágmarka skuggavarp og þar af leiðandi hámarka birtu inn í miðjuna.
Halli er búinn til í skarðinu til að mýkja yfirbragðið enn frekar og auka birtu í torginu. Efsta hæðin er inndregin til að veita þeim íbúðum upplifun einskonar sérbýlis og þá myndast gæðaleg útisvæði á þaksvölunum. Allar þessar breytingar hámarka útsýni og birtu, gera bygginguna fjölbreytta yfirlitum og gefa henni ef til vill ögn svip af veðurbörðu grjóti í flæðarmálinu.
Flest eigum við það sameiginlegt að finna þörfina fyrir að skapa okkur heimili – staðinn sem við setjum mark okkar á, eigum okkar skjól og finnum fyrir öryggi. Fjölskyldan, sem áður var hornsteinn heimilisins, er orðið býsna teygjanlegt hugtak. Einstaklingar eru einfaldlega ólíkir, ekki síður en þær einingar eða mengi sem þeir mynda, og þarfir og væntingar þeirra til búsetugerðar breytast á æviskeiðinu. Margir gera í dag kröfu um fjölbreytileika í íbúðagerð og að rými séu sem sveigjanlegust. Til að bregðast við þessu er í sumum íbúðum Hafnarbrautar 14 hægt að fækka eða fjölga herbergjum eftir því hvernig fjölskyldan tekur breytingum í gegnum æviskeiðið. Allar íbúðir eiga það þó sameiginlegt að þær eru hannaðar með því markmiði að skapa hlýleg og vel skipulögð rými.
Lögð er áhersla á gæði einstakra rýma innan íbúða með góðum tengingum á milli íbúðahluta, svo sem á milli stofu og eldhúss. Íbúðir hafa aukna loft-hæð og gluggar eru staðsettir þannig að þeir færi sem mesta birtu inn í rýmin, um leið og þeir ramma inn útsýni yfir fallegt nærumhverfið. Íbúðir eru þannig hugsaðar að óþarfa fermetrum sé haldið í lágmarki, til dæmis með því að lágmarka ganga og aðkomurými. Einnig hafa arkitektar byggingarinnar lagt alúð í að velja og hanna góðar og fallegar geymslulausnir innan íbúða í formi skápa og innréttinga.
Teymið sem stendur að byggingunni, frá húsbyggjanda til hönnuða, hefur unnið samstíga með þá sameiginlegu hugsjón að skapa arkitektúr þar sem gæði og virðing fyrir samfélagi og náttúru mynda órjúfanlega heild á þessu glæsilega uppbyggingarsvæði sem Kársnesið er.