15 milljónir

Á samfélagsmiðlum eftir samþykkt meirihluta bæjarstjórnar á fjárhagsáætlun ársins 2025 birtust auglýsingar á vegum Garðabæjar. Þar var gert mikið úr lækkun meirihlutans á álagningu fasteignaskatts, en hún fer úr 0,163% af fasteignamati í 0,161%. Í aðdraganda fjárhagsáætlunar var metið að bæjarsjóður fær um 15 milljónum minna í skatttekjur við þessa breytingu miðað við óbreytt ástand. 

Í aðdraganda bæjarstjórnarfundarins gerðum við útreikninga og reyndum að átta okkur á því hvaða áhrif þessi lækkun álagningar fasteignaskatts hefði á fjölskyldur í bænum. Í fyrsta lagi hefur hún engin áhrif á leigjendur í Garðabæ, það fólk sem jafnan hefur minnst á milli handana. Í öðru lagi þýðir lækkun álagningar fasteignaskatts að fólk sem á litlar íbúðir mun ekki njóta þessarar breytingar nema að mjög litlu leyti. Ráðstöfunartekjur fólks sem býr í íbúð sem metin er á 90 milljónir hækka t.d. um 1800 kr. á ársgrundvelli vegna skattalækkunar Sjálfstæðisflokksins, fyrir þau sem eiga íbúð metna á 65 milljónir er upphæðin um 1300 kr. Raunar hefur þessi breyting líka hverfandi áhrif á þau sem búa í stórum húsum. Fyrir fólk sem býr í húsnæði sem metið er á 200 milljónir króna mun lækkunin skila þeim 4000 kr. árlega sem annars hefðu farið í sameiginlega sjóði. Það er því eiginlega með ólíkindum að verið sé að kosta auglýsingar um þessa litlu breytingu á vegum bæjarins. 

En hvernig er best að verja 15 milljónum? 

Garðabæjarlistinn lagði fram breytingartillögu við fjárhagsáætlun þar sem lagt var til að í stað þess að lækka þessa skatta um málamyndafjárhæð sem gagnast fólki mjög misvel yrðu hvatapeningar hækkaðir í 65 þúsund á hvert barn í bænum á aldrinum 5-18 ára, í stað þess að hækka þá aðeins úr 55 í 60 þúsund eins og meirihlutinn lagði upp með. Það vill svo til að 5 þúsund króna aukahækkunin sem við lögðum til við afgreiðslu fjárhagsáætlunar hefði kostað bæinn um 15 milljónir. 

Áður höfðum við lagt fram tillögu um hækkun hvatapeninga í 70 þúsund í haust. 

Engin sérstök ástæða var til þess að fjármagna tillöguna, þar sem gert er ráð fyrir töluverðum rekstrarafgangi A-sjóðs á næsta ári, en við gerðum það nú samt. Í breytingartillögu Garðabæjarlistans fólst því að bærinn sleppti því að lækka fasteignaskattinn til þess að geta staðið straum af hækkun hvatapeninga en skilað sama rekstrarafgangi engu að síður. Við töldum að hér hefðum við mögulega tækifæri til þess að sannfæra meirihluta Sjálfstæðisflokks um að gera betur við fjölskyldur með því að fara milliveginn með breytingartillögunni hvað varðar upphæð hvatapeninganna og með því að fjármagna hana. 

Meirihlutinn felldi tillögur okkar á fundinum. 

Hefði meirihlutinn samþykkt þær, hefðu ráðstöfunartekjur fjölskyldu í lítilli íbúð með tvö börn í íþróttum- eða tómstundum hækkað um 10 þúsund kr. á næsta ári. En í staðinn fá þau 1300 króna skattalækkun sem bærinn auglýsir eins og hún sé byltingarkennd.  

Stjórnmál snúast á endanum um forgangsröðun og Garðabæjarlistinn forgangsraðar í þágu fjölskyldna og barna.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir. Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans í bæjarstjórn Garðabæjar. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar